*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 2. september 2019 09:42

Valdimar Ármann hættir

Breytingar hjá Kviku í kjölfar ákvörðunar stjórnar um að sameina alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar.

Ritstjórn
Valdimar Ármann hefur starfað hjá GAMMA í rúmlega tíu ár.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Kviku hefur sameinað alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar. Auk eignastýringar Kviku á bankinn rekstrarfélögin GAMMA Capital Management hf. og Júpíter rekstrarfélag hf.

„Með sameiningunni verður sameinað dótturfélag Kviku stærsta eigna-og sjóðastýringarfyrirtæki landsins,“  segir í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar. „GAMMA sameinast Júpíter auk þess sem öll eigna- og sjóðastýringarstarfsemi innan Kviku mun flytjast yfir í sameinað félag. Sameinað félag verður með um 45 starfsmenn og heildareignir í stýringu um 440 milljarðar. Breytingar þessar eru gerðar með fyrirvara um samþykki viðeigandi eftirlitsaðila."

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA hafi óskað eftir því að láta af störfum en mun gegna starfi sínu fram yfir sameiningu félaganna.

„Ég hef starfað hjá GAMMA nánast frá upphafi félagsins, eða í rúm 10 ár og það hefur verið mikil og lærdómsrík vegferð að byggja upp sjóðastýringarfélag frá grunni með sterkum hópi samstarfsmanna," er haft eftir Valdimari í fréttatilkynningunni.  „Nú er komið að tímamótum og það er ánægjulegt að sjá starfsemi GAMMA verða mikilvægan hluta af því sem ég trúi að verði öflugasta eignastýringarfélag landsins. Ég lít stoltur um öxl og björtum augum til framtíðar."

Hannes Frímann Hrólfsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku, verður framkvæmdastjóri sameinaðs félag og tekur strax við sem framkvæmdastjóri Júpíters. Hannes Frímann tók við starfi framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku árið 2017 í framhaldi af kaupum Kviku á Virðingu hf. en þar hafði hann starfað sem forstjóri. Virðing og Auður Capital sameinuðust árið 2014 og var Hannes Frímann forstjóri Auðar Capital áður. Hann var framkvæmdastjóri og einn stofnanda Tinda verðbréfa auk þess sem hann starfaði hjá Arion banka og Kaupþingi, m.a. sem aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta.

Í tilkynningunni er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, að  eigna- og sjóðastýringarstarfsemi Kviku hafi vaxið mikið á síðustu árum, bæði með ytri og innri vexti.

„Umhverfi fjármálafyrirtækja er að breytast og ég tel að mikilvægi eigna- og sjóðastýringarstarfsemi aukist enn frekar," er haft eftir Marinó.  „Eigna- og sjóðastýring er ein af meginstoðunum í rekstri bankans og ég tel að þessar breytingar muni styrkja starfsemina til frekari vaxtar. Mig langar sérstaklega til þess að þakka Valdimar forstjóra GAMMA fyrir hans störf, en hann hefur leitt félagið farsællega í gegnum miklar breytingar."

Ragnar Páll Dyer mun í dag hefja störf sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku, en hann hefur starfað hjá Júpíter frá 2010 og gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu síðan 2013. Ragnar hefur lokið stjórnendanámi frá Stanford háskóla, er með BSc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.