Dómstóll í Pakistan hefur sent frá sér úrskurð sem bannar að Valentínusardeginum, sem er á morgun, sé fagnað í landinu.

Bannar úrskurðurinn allar auglýsingar í fjölmiðlum sem vísa í Valentínusardaginn, sem og allan varning sem tengist deginum ásamt því að segja að ekki megi fagna deginum á opinberum vettvangi eða í opinberum byggingum.

Gegn kenningum íslam

Úrskurðurinn kom í kjölfar kvörtunar frá borgara að nafni Abdul Waheed, sem sagði að það að fagna þessum degi sem víða um heim er álitinn dagur elskenda væri „gegn kenningum Íslam og ætti að vera bannaður strax.

Í Pakistan er dagurinn álitinn ósiðlegur og liður í því að taka upp vestræna menningu. Andstaða við slíkt er ekki óþekkt, og hafa trúarhópar líkt og íslamski stjórnmálaflokkurinn Jamat e Islami oft mótmælt því að minnst sé á daginn í landinu og haldið mótmælagöngur 14. febrúar gegn deginum.

Árið 2016 bönnuðu stjórnvöld í borginni Peshawar í norðurhluta landsins hátíðarhöld í tilefni dagsins. Forseti landsins lýsti því yfir fyrir um ári síðan að Pakistanar ættu ekki að fagna deginum því hann væri „ekki hluti af íslömskum hefðum, heldur vestrænum."

Tífaldar tekjur blómasala

Dagurinn hefur ekki verið haldinn hátíðlega víða í landinu, en á undanförnum árum hafa ýmis fyrirtæki notað hann til að vekja athygli á vörum sínum. Hefur verð á rauðum rósum hækkað fyrstu vikurnar í febrúar og sölumenn hafa selt hjartalaga blöðrur.

Mohammad Naveed, sem selur blóm við vegarkantinn sagði við CNN að hann hefði fjárfest sem nemur 2.000 Bandaríkjadölum, eða um 227 þúsund krónum í að kaupa blóm fyrir daginn.

„Ef þeir banna okkur að selja þetta á morgun mun það verða algert stórslys, við munum einfaldlega ekki hafa efni á þessu," segir Naveed, en venjulega tífaldar hann daglegar tekjur sínar á Valentíusardaginn, sem venjulega nema um 80 dölum á dag, eða um 9 þúsund krónum.

Þess má geta að hinn gamalgróni íslenski hátíðisdagur konudagurinn er á sunnudag.