Valeria Rivina er nýr forstöðumaður veflausna Advania og leiðir öflugan hóp sérfræðinga í veflausnum og hugbúnaðarþróun. Hún hefur tíu ára stjórnunarreynslu í upplýsingatæknigeiranum og hefur leitt umfangsmikil stafræn umbóta- og þróunarverkefni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania.

Valeria er með BS-gráðu í verkfræði og diplómu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, þar sem hún stundar nú MBA-nám. Undanfarið ár hefur hún starfað sem rekstrarstjóri Ölmu íbúðafélags en þar á undan sem forstöðumaður stafrænnar þróunar hjá Icelandair og deildarstjóri hjá QuizUp.

„Veflausnir Advania eru í mikilli sókn. Teymið þjónustar mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins í stafrænum verkefnum. Við fögnum því mjög að fá Valeriu til liðs við okkur. Hún er kraftmikil og með reynslu sem klárlega nýtist viðskiptavinum okkar vel," segir Margrét Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri sérlausna Advania.

„Ég hef mikinn áhuga á sölu- og markaðsmálum og rekstri fyrirtækja. Ástríða mín liggur þó í tækni og notkun hennar til að leysa vandamál og bæta notenda- og þjónustuupplifun. Advania hefur fest sig í sessi sem eitt flottasta tæknifyrirtæki landsins og því er mikill heiður fyrir mig að fá tækifæri til þess að taka þátt í áframhaldandi sókn þess. Ég hlakka til að vinna með frábæru teymi við að þróa lausnir fyrir viðskiptavini, veita þeim bestu mögulegu þjónustuna og hjálpa þeim að hlaupa hraðar í átt að sínum markmiðum," segir Valeria.