Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, hefur ásamt eiginmanni sínum, Arvid Kro, hafið ferðaþjónustu á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Þetta kemur fram á vef Vikudags.

„Ferðaþjónusta hefur alltaf vakið áhuga hjá mér og svo er æskuheimilið mitt mér mjög kært,“ segir Valgerður í viðtali við blaðið. Hún segir húsið vera í góðu standi en unnið hefur verið að breytingum. Húsið var byggt árið 1924 og endurbætt árið 1932. Verið er að mála og setja ný gólfefni. Valgerður segir að komið hafi verið fyrir sturtum og fleiri snyrtingum í rými sem áður var mjaltavélaklefi. Norðan við húsið var settur heitur pottur.

„Ég hef alveg óskaplega gaman af því að mála og fegra það sem gamalt er og það má segja að ég hafi í allan vetur verið að mála en Arvid hefur svo unnið við endurbætur á húsinu frá því um páska,“ segir Valgerður.