Undirbúningur er nú í fullum gangi vegna ferðar viðskiptasendinefndar til Póllands undir forystu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, 16.?21. október nk. Áður hafði verið ráðgert að fara í júní en ferðinni var frestað fram í október þegar ljóst var að sá tími hentaði betur þeim fyrirtækjum sem lýst höfðu áhuga á þátttöku.

Skipulagðir verða viðskiptafundir í Varsjá og mögulega í Kraká. Haft er eftir Vilhjálmi Guðmundssyni forstöðumanni í fréttabréfi Útflutningsráðs að ferðin sé fyrst og fremst sniðin að þeim fyrirtækjum sem hafa áhuga á aukinni markaðssókn á þessum fjölmenna markaði og/eða hafa í hyggju að stofna til nýrra viðskiptasambanda þar. Ráðnir hafa verið samstarfsaðilar sem Útflutningsráð hefur góða reynslu af því að starfa með og þekkja markaðinn og atvinnulífið í Póllandi vel. Þeir sjá um að útvega hugsanleg viðskiptasambönd og skipuleggja viðskiptafundi, í samstarfi við Útflutningsráð, fyrir þá þátttakendur í viðskiptasendinefndinni sem þess óska.