Valgerður Sverrisdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokksins, en ákvörðun um það verður tekin á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn verður í næsta mánuði. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var á skrifstofu flokksins.

Hún  hefur verið alþingismaður frá árinu 1987, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 1999-2006 og utanríkisráðherra frá 2006-2007, en hún var fyrsta konan til að gegna ofantöldum ráðherraembættum og hefur verið lengst kvenna ráðherra í ríkisstjórn.

Valgerður sagði Framsóknarflokkinn hvorki vera til hægri né vinstri, heldur stefndi beint áfram í að vinna að lausn mála sem frjálsyndur umbótaflokkur. Hún segir ánægjulegt að ný ríkisstjórn skuli sækja stefnumál sín í smiðju Framsóknarflokksins, en megintilgangur Samfylkingar hafi átt að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, en annað hafi komið á daginn. Erum við því á fullri ferð inn í fjögurra flokka kerfið á ný og það mun verða Framsóknarflokknum hagstætt.

Valgerður telur að hún og Guðni myndu verða gott teymi með sterka breidd í forystu flokksins. Það sé mikilvægt nú að veita nýjum og stórum meirihluta á Alþingi aðhald, næg væru tækifærin og sagðist hlakka til að takast á við ný verkefni.

Valgerður er sú eina sem lýst hefur yfir framboði í embættið en það losnaði þegar Jón Sigurðsson sagði af sér sem formaður flokksins á miðvikudag og Guðni Ágústsson tók við af honum.