„Þetta kom mér mikið á óvart en ég get ekki annað en virt þessa ákvörðun og óskað honum velfarnaðar," segir Valgerður Sverrisdóttir um það að Guðni Ágústsson hafi látið af formennsku í Framsóknarflokknum.

Valgerður, sem verið hefur varaformaður flokksins, hefur nú tekið við af Guðna sem formaður flokksins.

Valgerður segist líta á þetta tímabil framundan sem millibilsástand því kosið verði um nýja forystu á flokksþingi í janúar. Á því sama flokksþingi, segir Valgerður, verður mótuð stefna flokksins til framtíðar.

Hún segir að næstu skref felist í því að kalla framkvæmdastjórn flokksins saman og undirbúa flokksþingið.

Þegar hún er spurð hvort hún ætli að bjóða sig fram til formennsku á flokksþinginu svarar hún: "Það er algjörlega óljóst."

Tók við formannsstólnum við sérstakar aðstæður

Valgerður er stödd á Egilsstöðum og segir að Guðni hafi hringt í sig fyrr í dag til að tilkynna þessa ákvörðun sína.

Valgerður minnir á að Guðni hafi tekið við formannsstólnum við mjög sérstakar aðstæður fyrir rúmu ári, eða þegar Jón Sigurðsson, þáverandi formaður, ákvað óvænt að hverfa af vettvangi stjórnmálanna. Nú hyrfi Guðni líka óvænt af þeim sama vettvangi.

Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina var hart sótt að forystu flokksins. Samþykkt var á fundinum að á flokksþingi sem haldið yrði i janúar yrði tekin afstaða til aðildarsumsóknar að Evrópusambandinu.

Guðni hefur skipað sér í hóp þeirra sem hafa verið með efasemdir í garð ESB en Valgerður hefur verið í hópi Evrópusambandssinna.