„Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á efnahagsruninu, eins og formaður Samfylkingarinnar ýjar gjarnan að," sagði Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni, sem hún flytur nú á flokksþingi framsóknarmanna í Valsheimilinu. Hátt í þúsund manns sitja þingið.

„Eftir því sem fleiri kurl koma til grafar verður sífellt ljósara að núverandi stjórnvöld sváfu á verðinum," sagði Valgerður er hún vék að efnahagsmálum.  „Síðla árs 2007 og á árinu 2008 glumdu viðvörunarbjöllurnar háværum hljómi en ríkisstjórnin skellti við skollaeyrum. Hún neitaði að hlusta og gaf lítið fyrir vísra manna ráð. Ekkert var aðhafst."

Hún sagði að íslenska þjóðin fylgdist í beinni útsendingu með hverju deilumálinu á fætur öðru milli ríkisstjórnarflokkanna  og sypi seyðið af því til langrar framtíðar.

„Hvernig er hægt að treysta ríkisstjórn sem þessari?", spurði Valgerður.

Eignarhald verði tryggt í viðræðum við ESB

Valgerður hefur komið víða við í ræðu sinni. Hún sagði meðal annars að það hefði komið á daginn að það væri einfaldlega of áhættusamt að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli heims "og treysta honum til að fljóta eins og korktappa á stórsjó hins alþjóðlega fjármálaheims," eins og hún orðaði það.

„Í dag hefur sú peningamálastefna beðið skipbrot og í Seðlabankanum, í Sjálfstæðisflokknum, og víðar, þurfa menn nú að horfast í augu við staðreyndir sem áður mátti ekki einu sinni nefna. Veruleikinn breytist aldrei við það að neita að horfast í augu við hann."

Hún sagði að það væri eitt af stærstu verkefnum framsóknarmanna á flokksþinginu að taka afstöðu til þeirrar spurningar hvort Íslendingar ættu að hefja aðildarviðræður við ESB „og láta á það reyna í samningaferli hvort samningar náist, þar sem vel skilgreind samningsmarkið okkar nái fram að ganga," sagði hún.

„Slíkan samning yrði að sjálfsögðu að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði hún.

„Ég vænti þess að hér á flokksþinginu munum við koma okkur saman um þau markmið sem við þurfum að ná fram ef til þess kemur að gengið verði til aðildarviðæðna við Evrópusambandið," sagði hún.

„Þar á ég við þau markmið að tryggja innlent eignarhald auðlinda okkar til lands og sjávar. Við þurfum sömuleiðis að tryggja að landbúnaður okkar geti blómstrað til frambúðar og brauðfætt þjóðina og við þurfum að tryggja óskorað fullveldi með skýru ákvæði um að við getum sagt okkur úr sambandinu ef þurfa þykir. Náist þessi atriði ekki fram í aðildarviðræðum tel ég enga þörf á að leggja samning undir dóm þjóðarinnar. Svo sammála tel ég að þjóðin sé um þessar grundvallarforsendur aðildar."

Mikilvægt flokksþing

Í lok ræðu sinnar sagði Valgerður að kannski væri þetta flokksþing mikilvægasti tímapunktur fyrir Framsóknarflokkinn í áratugi.

„Íslenskt samfélag er í upplausn eftir efnahagsáföll og verkefnin sem við blasa eru bæði erfið og mikilvæg. Flokkurinn stendur mjög illa í skoðanakönnunum og ef hann á að leika mikilvægt hlutverk í endurreisninni verður flokkurinn að ná fyrri styrk," sagði hún.

„Traust þjóðarinnar mun aðeins fást við samhentan flokk sem hefur eitthvað mikilvægt til málanna að leggja. Samvinnuhugsjónin, félagshyggja, jöfnuður og umfram allt manngildi ofar auðgildi eiga að vísa okkur leið – bæði flokknum og þjóðinni til heilla. Göngum héðan hnarreist og einbeitt og sækjum fram, saman," sagði hún í lok ræðunnar.

(Fréttin var uppfærð kl. 13.50)