Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að þær séu viðleitni í þá átt að bæta efnahagsástandið og styrkja krónuna. Hún líti þó á þær sem fyrsta skrefið af fleirum.

„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að kalla eftir mjög lengi þannig að það er vissulega ánægjuefni að gripið sé til aðgerða - sem að margra mati mættu þó vera róttækari - en ég lít á þetta sem fyrsta skref,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Hún ítrekar að það sé ánægjuefni að komin sé niðurstaða varðandi gjaldeyrisskiptasamninga við nágrannalöndin. „Það sýnir sig nú, eins og svo oft áður, að það skiptir Ísland miklu máli að tilheyra norrænu fjölskyldunni.“