Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist hafa mikin áhuga á að skoða þann möguleika að Ísland gerist fullgildur aðili að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) án aðildar að ESB. Þetta kemur fram í nýjum pistli á heimasíðu hennar.

Þar kemur fram að einnig sé það skoðun hennar að vert sé að skoða hvort Ísland geti samið sérstaklega um upptöku evrunnar án fullrar aðildar að EMU eða ESB. "Þessar leiðir tel ég báðar vera færar séð frá sjónarhóli reglna ESB. Málið snýst fyrst og fremst um pólitískan vilja framkvæmdastjórnarinnar ef að áhugi væri fyrir slíku hjá íslenskum stjórnvöldum."

Í pistli sínum veltir Valgerður fyrir sér afleiðingum undanfarinna daga. "Þó svo að sú skráma sem hagkerfið fékk á sig í vikunni verði fljót að gróa þá er ekki því að neita að staða okkar í þeim efnum er umhugsunarefni. Getum við til langframa verið hluti af stóru hagkerfi sem er innri markaður Evrópu þar sem ríkir frelsi í flutningum á fjármagni, en samt haldið sjálfstæðri mynt með takmörkunum sem það hefur í för með sér. Sú spurning hvort hagsmunum Íslands verði best þjónað sem því að gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) verður stöðugt áleitnari.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ lét nýlega hafa eftir sér að við ættum að skoða það alvarlega að skipta hér um gjaldmiðil og taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Hann segir það misskilning að við þurfum að ganga í Evrópusambandið til að taka upp evruna. ?Við getum bara tekið þá ákvörðun að taka upp evruna og þurfum ekkert leyfi til þess? segir Friðrik.

Mér finnst mjög eðlilegt að sjávarútvegurinn, sem byggir svo mjög á útflutningi velti þessu fyrir sér. En hverjir eru kostirnir? Þeir eru í raun fjórir," segir Valgerður og telur þá upp:

Að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.
Að Ísland gerist fullgildur aðili að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) án aðildar að ESB
Að Ísland semji sérstaklega um upptöku evrunnar án fullrar aðildar að EMU eða ESB.
Að Ísland tengi gengi krónunnar við gengi evrunnar.