Með illu skal illt út reka, segir máltækið. Þetta sannast einna best á þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til í lánsfjárkreppunni. Á sama tíma og bandarísk stjórnvöld reyna að koma í gegnum þingið epískri björgun á fjármálamarkaði og ríkisstjórnir víðsvegar um Evrópu þjóðnýta banka, hafa Írar gengið manna lengst í þessum efnum, enn sem komið er.

Írska ríkið hefur tryggt allar innistæður og skuldbindingar helstu banka landsins. Litið er á þetta sem víðtækustu björgunaraðgerð á fjármálamarkaði frá því í norrænu fjármálakreppunni á tíunda áratug nýliðinnar aldar. Andvirði tryggingar írskra stjórnvalda nemur ríflega 200% af vergri landsframleiðslu en samt sem áður er ekki talið líklegt að hún leiða til verra lánshæfismats.

Breska blaðið The Daily Telegraph hefur eftir Moritz Kraemer, sem er yfirmaður þeirrar deildar Standard & Poor’s sem greinir lánshæfi ríkisstjórna í Evrópu, að það sé ekkert sem ógni lánshæfiseinkunninni um þessar mundir.

Lánshæfiseinkunn Írlands er AAA og er skuldsetning írska ríkisins 25% af landsframleiðslu og svo skiptir máli að ekki er víst að stjórnvöld þurfi að taka frekari lán til þess að standa straum af tryggingunni.