Ari Bragi Kárason trompetleikari var í dag tilnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2014.

„Ari Bragi hefur leikið inn á hljómplötur með stórstjörnum á borð við Norah Jones, Tigran Hamaysian, Ane Brun auk fjölmörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins á borð við Bubba Morthens, Hjaltalín, Jóel Pálsson og Kristjönu Stefánsdóttur," segir í tilkynningu.

Hann er átjándi Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina og langyngstur til þessa.

„Hinn nýkrýndi bæjarlistamaður hefur frá unga aldri verið áberandi í tónlistarlífi bæjarins. Hann býr að fjölbreyttu tónlistarnámi, sem hófst við Tónlistarskóla Seltjarnarness og var snemma áberandi í íslensku tónlistarlífi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ari Bragi nú þegar skipað sér í raðir okkar fremstu tónlistarmanna."

Ari Bragi útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH árið 2008 úr jazz- og rokkbraut auk þess að ljúka á sama tíma námi úr klassískri braut skólans. Eftir það hélt hann til náms í New York og útskrifaðist með láði frá New School for Jazz and Contemporary Music árið 2012. Ari Bragi kennir nú trompetleik við Tónlistarskóla Seltjarnarness ásamt því að koma reglulega fram og leika inn á hljóðupptökur.