*

miðvikudagur, 11. desember 2019
Innlent 23. maí 2019 07:30

Valitor áfrýjar WikiLeaks dómi

Stjórn félagsins hefur ákveðið að áfrýja 1,2 milljarða skaðabótadómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl.

Júlíus Þór Halldórsson
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir stuttu að Valitor væri ósammála mjög mörgu varðandi dóm héraðsdóms, sem stæði á veikum grunni.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Valitor ákvað í gær að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðasta mánuði, þess efnis að félagið skyldi greiða rekstrarfélagi WikiLeaks, Sunshine Press Productions, og þjónustuaðila þess, DataCell, 1,2 milljarða króna í bætur fyrir að hafa rift samningi við hið síðarnefnda og lokað þar með greiðslugátt þess.

„Við erum búin að liggja yfir þessu og skoða málið frá öllum köntum og niðurstaðan er sú að áfrýja, þannig að málið heldur áfram,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Forsaga málsins er sú að árið 2011 gerði greiðslumiðlunarfyrirtækið samning við DataCell um færsluhirðingu, en þegar stjórnendur þess komust að því að tilgangurinn væri að miðla fjármunum til uppljóstrunarsamtakanna WikiLeaks, var samningnum rift.

Árið 2013 dæmdi hæstiréttur riftunina ólögmæta, og í kjölfarið höfðuðu félögin tvö skaðabótamál á hendur Valitor, sem endaði með fyrrnefndum dómi héraðsdóms fyrir mánuði síðan.