Í liðakeppni Mottumars fór Valitor með sigur af hólmi og unnu liðsmenn sér þar með inn hvalaskoðunarferð með Eldingu og aðgang fyrir tólf í Bláa lónið, að því er kemur fram í tilkynningu. Í öðru sæti var Alcoa Fjarðarál og í þriðja sæti Norðurál á Akranesi. Þessi tvö fyrirtæki unnu því gjafabréf fyrir hóp í Viðeyjarferjuna með Eldingu en Alcoa fær einnig aðgang fyrir sex í Bláa lónið. Allir vinningshafarnir í Mottumars fá einnig grænmetiskörfu frá Íslenskum grænmetisbændum.

Í einstaklingskeppninni var sigurvegari ársins Vilhjálmur Óli Valsson en hann safnaði 1.257.000 krónum. Ásamt því að bera titilinn Mottan 2013, fær Vilhjálmur einnig vikuferð fyrir tvo til Almera með Úrval Útsýn. Í öðru sæti var Páll Sævar Guðjónsson en hann safnaði 1.008.028 krónum. Hann vann sér inn þyrluflug með Þyrluþjónustunni fyrir allt að sex manns. Í þriðja sæti var Kristján Björn Tryggvason, hann fær gjafabréf frá Flugfélagi Íslands fyrir 20 þúsund krónur ásamt gistingu fyrir tvo á Fosshóteli. Kristján safnaði 663.439 krónum.

Frá því í byrjun mars hafa rúmlega 2000 einstaklingar og rúmlega 200 lið tekið höndum saman og safnað áheitum inn á mottumars.is. Þegar keppninni lauk klukkan fjögur höfðu safnast 25.521.849 krónur. Þrátt fyrir að keppninni er nú lokið verður enn hægt að heita á flottar mottur inn á heimasíðunni mottumars.is .