Valitor fær meira en 9,1 milljarð króna í sinn hlut vegna yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe Ltd. Um er að ræða sambærilegar greiðslur og Borgun fær í sinn hlut. Í samtali við mbl.is segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, að fyrirtækið fái 6,8 milljarða í reiðufé og hlutabréf að verðmæti 2,3 milljarða.

Arion banki á 100% hlut í Valitor Holding sem á 99% hlut í Valitor. Í ársreikningi Arion banka, sem birtur var fyrir skemmstu , kemur fram að ávinningur bankans af yfirtökunni nemi 2.903 milljónum króna að teknu tillyti til áætlaðra skattaáhrifa og skilyrtrar greiðslu til Landsbankans, sem samið var um við kaup Arion banka á 38% hlut í Valitor Holding hf. af Landsbankanum á árinu 2014.