Greiðslulausnafyrirtækið Valitor flytur höfuðstöðvar sínar frá Reykjavík til Hafnarfjarðar í haust. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Valitor og Reitir fasteignafélag hafi í þessu skyni undirritað langtíma leigusamning um rúmlega 3.500 fermetra húsnæði við Dalshraun 3 í Hafnarfirði. Um er að ræða þrjár efstu hæðirnar í þessari nýbyggingu sem mun hýsa nýjar höfuðstöðvar Valitor hér á landi í framtíðinni. Núverandi höfuðstöðvar eru á Laugavegi 77 en auk þess rekur fyrirtækið starfsstöð í Danmörku og opnar á næstunni skrifstofu í London. Starfsmenn Valitor eru um 160 talsins.

Nýjar höfuðstöðvar Valitor standa við hlið Actavis hússins við fjölfarin gatnamót en báðar þessar eignir eru í eignasafni Reita. Á næstu mánuðum munu Reitir fullklára húsið og laga að þörfum Valitor. Sú byggingarframkvæmd er ein sú umfangsmesta sem vitað er um að ráðist verði í á þessu svæði næstu misserin, að því er segir í tilkynningunni.