Hagnaður Valitor nam 215 milljónum króna á síðasta ári. Er það töluverður viðsnúningur frá fyrra ári þegar fyrirtækið tapaði 309 milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Rekstrarniðurstaðan telst vel viðunandi í ljósi þess að á árinu voru gjaldfærðar um 450 m.kr. vegna sekta og tengdra mála er varða rekstur á árunum 2002 til 2009, jafnframt því sem mikið uppbyggingarstarf átti sér stað á mörkuðum erlendis,“ segir í tilkynningunni.

Rekstrartekjur Valitor námu 8.561 milljónum króna og jukust um 1.436 milljónir eða sem nemur 20% frá fyrra ári. Rekstrargjöld voru 8.111 milljónir króna og hækkuðu um 16% á milli ára. EBITDA ársins 2014 nam því 765 milljónum en var 402 milljónir árið 2013.

Tekjuskattur nam um 179 milljónum króna á árinu 2014 og var virkt skatthlutfall 45% sem stafar af miklum ófrádráttarbærum kostnaði. Hagnaður og heildarafkoma eftir skatta var því 215 milljónir króna en var neikvæð um 309 m.kr. árið á undan.

„Viðsnúningur í rekstri Valitor skýrist fyrst og fremst af farsælli stefnumótun varðandi færsluhirðingu félagsins erlendis en þar jukust þjónustutekjur yfir 80% milli ára. Miklu skiptir að við höfum vandað valið á samstarfsaðilum okkar ytra en í þeim hópi eru sum af framsæknustu greiðslumiðlunarfyrirtækjum í Evrópu og víðar, sem deila metnaði okkar um framboð á framsæknum lausnum. Geta til vöruþróunar er ein mikilvægasta grunnhæfni Valitor og kjölfesta verðmætasköpunar. Með slíkan bakgrunn, öfluga samherja og skýra framtíðarsýn er okkur ekkert að vanbúnaði að takast á við áskoranir framtíðarinnar,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.