Valitor hefur samið við breska fyrirtækið Caxton FX um útgáfu á fyrirframgreiddum greiðslukortum með fjölmyntaveski.

Fram kemur í tilkynningu frá Valitor að fyrirframgreidd greiðslukort séu í mikilli sókn á alþjóðlegum mörkuðum og innan þessa geira hafi komið fram tækifæri til nýsköpunar. Því muni Valitor hleypa af stokkunum nú í nóvember háþróuðu kortakerfi í Bretlandi.

Nýja kerfið er afsprengi vöruþróunarverkefnis í samstarfi við MasterCard og Caxton FX sem sérhæfir sig í gjaldeyrismiðlun og sölu á gjaldeyriskortum. Valitor og Caxton FX munu í sameiningu gefa út nokkur hundruð þúsund fyrirframgreidd kort sem byggjast á fjölmyntaveski (e. multi currency wallet) sem Valitor hefur hannað. Valitor áætlar að viðskiptin skili fyrirtækinu hundruðum milljóna í tekjur á næstu árum.

Viðskiptahugmyndin gengur út á að viðkomandi einstaklingur fær sér sérstakt fyrirframgreitt greiðslukort til að halda utan um gjaldeyri á ferðalögum sínum, nokkuð sem þekkist t.d. ekki hérlendis. Hugbúnaðarkerfið, sem Valitor hefur hannað, heldur utan um peninga viðkomandi líkt og rafrænt veski sem veitir eigandanum í rauntímayfirlit yfir verðmæti heildarinneignar og stöðu viðkomandi gjaldmiðla í veskinu.

Veskið gerir korthafanum líka kleift að nota kortið þó hann eigi ekki inneign í mynt viðskiptanna ef hann á nóg fyrir andvirðinu í öðrum myntum í veskinu. Alls getur korthafinn átt allt að 15 mismunandi myntir í veskinu.

Samstarf Valitor og Caxton FX gengur þannig fyrir sig að Valitor gefur kortin út í gegnum leyfi sitt hjá MasterCard og sér jafnframt um heimildavinnslu og uppgjör við MasterCard. Valitor heldur líka utan um stöðu fjölmyntaveskjanna og tengir þau við viðkomandi kort, auk þess að hanna hugbúnaðarkerfið sem öll upplýsingavinnslan og utanumhaldið byggist á.

Caxton FX markaðsetur kortin, selur þau á breskum markaði og sér um gjaldeyriskaupin inn á kortið, auk þess að annast alla þjónustu og bein samskipti við korthafa.

„Okkar eigin hugbúnaðarlausnir eru kjarni samkeppnishæfni Valitor. Það er virkilega uppörvandi að upplifa hve vel þær standast erlendan samanburði á sviði framsækinnar tækni. Þetta metnaðarfulla samstarf við Caxton FX og MasterCard kemur okkur inn í nýja og áhugaverða vídd á breska markaðnum sem er einn helsti markaður okkar í Evrópu,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.