Valitor skrifaði í vikunni undir samstarfssamning við breska fyrirtækið White Eagle Plc um útgáfu á fyrirframgreiddum kreditkortum fyrir Bretlandsmarkað. Samstarfið tekur bæði til útgáfu á kortum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Með samningnum verður starfsemi Valitor í Bretlandi víðtækari og fjölbreyttari, m.a. vegna þess að við bætist útgáfa á kortum til einstaklinga.

Í tilkynningu frá Valitor kemur fram að hugbúnaðurinn, sem sérfræðingar Valitor hafa þróað fyrir íslenskan markað, njóti vaxandi athygli og eftirspurnar í Bretlandi. Um er að ræða útgáfukerfi fyrir greiðslukort en Valitor lét á síðasta ári reyna á markaðssetningu á hugbúnaðinum á breskum markaði í samstarfi við þarlenda aðila og Visa í Evrópu. Viðbrögðin hafa verið góð.

Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor segir það ánægjulegt að geta flutt út afrakstur þróunarvinnu starfsmanna fyrirtækisins. „Við erum líka stolt af því að útflutningur á sérþekkingu Valitor hefur skapað 25 störf hér heima á síðustu tveimur árum.“