Arion banki tilkynnti í kvöld að Fjármálaeftirlitið hefði samþykkt sölu bankans á Valitor til fjártæknifyrirtækisins Rapyd. Þar með hafa allir fyrirvarar kaupsamningsins, sem var tilkynntur fyrir ári síðan, verið uppfylltir og gengið verður frá kaupunum á næstu dögum.

Í tilkynningu Arion til Kauphallarinnar segir að væntur hagnaður vegna sölunnar, að frádregnum sölukostnaði, sé áætlaður um 5,5 milljarðar króna, miðað við gengi dagsins.

Samkvæmt upphaflega samningnum nam kaupverðið 100 milljónum dala, eða tæpum 13 milljörðum króna. Eftir að samkomulagið var framlengt í lok apríl, þar sem niðurstaða rannsóknar SKE lá ekki fyrir, þurfti Rapyd að greiða Arion viðbótargreiðslu að fjárhæð 10 milljónir dala, eða um 1,3 milljarða króna. Auk þess mun Rapyd greiða Arion 10% vexti á ársgrundvelli af upphaflegu kaupverði frá 1. apríl 2022 og fram til uppgjörs viðskiptanna.

Þann 23. maí síðastliðinn samþykkti Samkeppniseftirlitið viðskiptin með skilyrðum, sem fela m.a. í sér að Rapyd skuldbindi sig til að selja hluta af samningum við söluaðila til Kviku banka.