Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, segir stjórn fyrirtækisins hafa markað þá stefnu að skrá félagið á hlutabréfamarkað á næstu fáeinum árum þótt tímasetning hafi ekki verið skilgreind nánar. Þá segir hann stjórnendur Valitors mjög bjartsýna á framtíðina. Reksturinn hafi gengið vel og fjöldi tækifæra á erlendri grundu sé við sjóndeildarhringinn. Stefnt sé á að þrefalda veltu fyrirtækisins erlendis á næstu árum.

„Við erum að horfa til þess að ná töluverðum vexti á næstu 4-5 árum. Það er alveg ljóst að til þess að vera með hagkvæman rekstur þarf að ná ákveðinni stærð. Við höfum sett stefnuna á að ná þeirri stærð sem við teljum að þurfi til þess að vera samkeppnishæf til framtíðar og höfum sett okkur það markmið að þrefalda veltuna erlendis á næstu fjórum árum. Það myndi þýða að um 80% af okkar veltu væri erlendis,“segir hann og bætir við að 20% af heildartekjum VISA í Evrópu komi orðið af netviðskiptum og að hlutfall tekna af netviðskiptum vaxi um 40% á ári.

„Við erum því mjög vel staðsett þarna og það sama á við um fyrirframgreiddu kortin. Sá markaður er í jafnörum vexti þannig að við erum mjög bjartsýn á framtíðina og sjáum fram á að geta haldið áfram að vaxa og dafna en þó af varfærni eins og við á og við hugum að innviðunum samhliða þessum vexti. Við sjáum fram á að halda áfram að búa til störf hér á landi og hér hjá okkur er hópuraf frábæru og velmenntuðu starfsfólki sem er tilbúið að halda áfram á sömu braut,“ segir Viðar Þorkelsson.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, er í viðtali við Viðskiptablaðið í þessari viku. Þar ræðir hann m.a. um samráðsmálið, málssókn Kortaþjónustunnar á hendur Valitor og framtíðarhorfur félagsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.