Valitor er ósammála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gagnvart fyrirtækinu sem birt var rétt í þessu. Þar kom fram að Samkeppniseftirlitið hefði sektað Valitor um hálfan milljarð króna fyrir brot á samkeppnislögum og fyrir brot á sátt sem gerð var árið 2007.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að ákvörðun eftirlitsins snúist um mat á því hvort Valitor hafi brotið sátt sem þessir aðilar gerðu með sér og tók gildi í ársbyrjun 2008. Ákvörðunin varðar einnig mat á því hvort Valitor hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Valitor hafnar hvorutveggju og mun vísa ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Valitor segir jafnframt í yfirlýsingunni að sérstök ástæða sé til að benda á að Samkeppniseftirlitið sé ekki óskeikult í sínum niðurstöðum. Þannig hafi Valitor í tvígang þurft að leita á náðir dómstóla í tengslum við þetta mál og í bæði skiptin hafi Hæstiréttur úrskurðað Valitor í vil.