Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor staðfestir að í dag missi 20 starfsmenn fyrirtækisins hér á landi vinnuna, þó að möguleiki sé fyrir hluta af starfsmönnunum að flytjast til Bretlands og sinna starfi sínu þaðan. Uppsagnirnar eru liður í umfangsmiklum skipulags- og hagræðingaraðgerðum hjá fyrirtækinu að því er Vísir greinir frá.

Munu ellefu af þessum tuttugu störfum færast frá Íslandi til Bretlands, en níu störf verða alfarið lögð niður, en uppsagnarfrestur þeirra síðarnefndu verður misjafn.

„Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er ekki síst að rekstrarumhverfi félagsins, sérstaklega á Íslandi, hefur verið að versna,“ segir Viðar en til viðbótar við styrkingu krónunnar hafi komið inn kostnaðarhækkanir sem spili inn í. „Við erum með stærstan hluta af tekjunum erlendis. Þá er krónan í sögulegu hámarki sem hefur mikil áhrif á okkar tekjumyndun.“

Valitor hefur um 10 þúsund viðskiptavini í Bretlandi en um 5 þúsund hér á landi, og er flutningurinn hugsaður svo að starfsfólkið sé nær viðskiptavinunum. Fyrir utan starfsemi félagsins hér á landi og í Bretlandi er það einnig með starfstöð í Danmörku.