*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 4. júlí 2019 09:38

Valitor semur við Sunshine Press

Sáttin er í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl síðastliðnum.

Ritstjórn
Viðar Þorkelsson er forstjóri Valitor.
Haraldur Guðjónsson

Valitor og félögin Sunshine Press Productions (SPP) og DataCell hafa gert dómsátt í máli félaganna gegn greiðslumiðlunarfyrirtækinu. Sáttin er í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl síðastliðnum. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Málið á rætur að rekja átta ár aftur í tímann en það varðar bótaskyldu Valitor eftir að hafa lokað á greiðslugátt til félaganna tveggja. Með dómi Hæstaréttar árið 2013 var komist að þeirri niðurstöðu að sú aðgerð hefði verið ólögmæt og hefur verið deilt um fjárhæð bóta síðan þá.

Dómkvaddir matsmenn mátu tjón félaganna 3,2 milljarða en héraðsdómur dæmdi bætur, 1,2 milljarða, að álitum. Áður hafði verið tilkynnt að Valitor hefði áfrýjað málinu til Landsréttar en ekki mun koma til meðferðar málsins fyrir réttinum þar sem því hefur lokið með sátt utan dóms. Aðalkrafa félaganna hafði hljóðað upp á um 8 milljarða króna.

Eftir að dómurinn var kveðinn upp í apríl sendi Arion banki frá sér tilkynningu vegna áhrifa sem dómurinn myndi hafa á afkomu samstæðunnar. Áætlað var að hann myndi hafa neikvæð áhrif upp á 600 milljónir. Hluti hinna dæmdu bóta mun lenda á Landsbankanum en um slíkt var samið þegar Landsbankinn seldi eignarhlut sinn í Valitor til Arion.

Stikkorð: Valitor