Kortafyrirtækið Valitor tapaði 10 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í uppgjöri Arion banka, sem er eigandi Valitor.  Tap ársins 2018 hjá Valitor nam 2 milljörðum króna og fimmfaldast því milli ára.

Áhrif félagsins á samstæðu Arion banka nam 8,6 milljörðum króna þar sem þóknanatekjur upp á 1,4 milljarða króna höfðu jákvæð áhrif. Mestu munaði um hreina virðisbreytingu sem var lækkuð um 4,1 milljarða króna. Laun og launatengd gjöld hækkuðu úr 4,4 milljörðum í 5,6 milljarða króna milli ára og annar rekstrarkostnaður ír 3,9 milljörðum í 7 milljarða króna. Félagið var dæmt til að greiða Datacell og Wikileaks 1,2 milljarða króna í apríl.

Valitor er til sölu hjá Arion banka. Bókfært virði Valitor hefur lækkað á árinu úr 15,8 milljörðum króna í 6,5 milljarða króna á árinu 2019.

Sjá einnig: Misheppnuð útrás kortafyrirtækjanna

Hagnaður Arion banka nam milljarði króna árið 2019, og arðsemi eigin fjár nam 0,6%. Lagt er til að bankinn greiði tíu milljarða króna í arð.

Kísilver metið á 2,7 milljarða

Stakksberg, dótturfélag Arion banka, sem vinnur að endurbótum að kísilveri United Silicon, færði niður virði verksmiðjunnar um 3,8 milljarða króna á síðasta ári. Félagið metur kísilverið nú á 2,7 milljarða króna og hefur bankinn tapað á öðrum tug milljarða króna á aðkomu sinni að kísilverinu. Alls námu lýstar kröfur í þrotabú United Silicon 23 milljörðum króna líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma.

Töpuðu milljarði á Travelco

Þá tapaði Arion banki milljarði króna á ferðaskrifstofum Travelco á síðasta ári, sem áður voru innan Primera. Bankinn tók ferðaskrifstofurnar yfir á síðasta ári vegna vanskila félagsins. Í uppgjörinu kemur fram að 600 milljónir af tapinu hafi fallið til eftir að bankinn tók ferðaskrifstofurnar yfir. Arion banki metur ferðaskrifstofurnar á 2,1 milljarð króna.