Alþjóðlega stórfyrirtækið Apple ákvað í þessari viku að Bretland yrði fyrsta landið utan Bandaríkjanna þar sem boðið verður upp á ApplePay sem greiðsluleið. Fram kom að 70% breskra korthafa  geti skráð kortið sitt í ApplePay-veski strax 1. júlí næstkomandi.

Á sama tíma fékk Valitor þær fréttir að hafa verið valið eitt af sex fyrirtækjum úr hópi 150 færsluhirða á Evrópumarkaði til að þjónusta ApplePay, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að undirbúningsferlið hafi verið mjög krefjandi fyrir Valitor og það hafi útheimt mikla vinnu.

Þjónustuna mun Valitor veita í nánu samstarfi við bandaríska fyrirtækið Stripe sem vinnur meðal annars með Twitter og Facebook auk Apple. Frá 1. júlí munu breskir kaupmenn í viðskiptum við Stripe geta þróað stuðning við ApplePay sem greiðslumáta inn í eigið iOS app. Stripe, með Valitor sem færsluhirði, er einn af örfáum aðilum sem fá að bjóða breskum kaupmönnum upp á þessa þjónustu í fyrstu lotu. Í kjölfarið mun öðrum samstarfsaðilum Valitor á breskum markaði einnig standa til boða að taka við greiðslum með ApplePay.

„Það ríkir mikil gleði í okkar röðum yfir þessum góðu tíðindum. Þetta er auðvitað mikilvæg viðurkenning fyrir okkar fólk og skapar okkur spennandi tækifæri á Evrópumarkaði. Árangurinn er dæmi um hvers við erum megnug ef við setjum markið hátt og vinnum saman sem ein heild,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Tekjur Valitor ytra hafa tvöfaldast á einu ári og nema erlendar tekjur nú um 40% af heildartekjum fyrirtækisins. Segir í tilkynningunni að velgengni fyrirtækisins sé öflug sölustarfsemi og viðskiptaþróun í Evrópu ásamt nýsköpun á sviði hugbúnaðarlausna sem kallast á við nýjustu framþróun á sviði greiðslumiðlunar og samskipta.