Samfélagssjóður Valitor veitti fimm styrki í gær. Sjóðurinn var stofnaður fyrir 21 ári síðan og hafa síðan þá verið veittir 148 styrkir til einstaklinga og samtaka sem láta til sín taka á sviði menningar-, mannúðar-, samfélags- og velferðarmála.

Að þessu sinni hlaut Mottumars Krabbameinsfélagsins styrk til rannsókna á krabbameini hjá íslenskum karlmönnum. Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans fékk styrk til að innrétta herbergi fyrir aðstandendur og sjúklinga á kvennadeild Landsspítalans. Þá fékk Guðrún Sóley Sigurðardóttir styrk til að stunda leiklistarnám með áherslu á sviðslistir við Royal Conservatoire of Scotland. Halldór Smárason fékk styrk til að stunda meistaranám í klassískum tónsmíðum við Manhattan School of Music í New York og Rannveig Káradóttir styrk til að stunda meistaranám (Performance) í óperusöng við the Royal College of Music í London.

Stjórn sjóðsins afhenti styrkina en hana skipa Guðmundur Þorbjörnsson, stjórnarformaður Valitor,  Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor og Kristján Þór Harðarson, sviðsstjóri Markaðs- og viðskiptaþróunar Valitor.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor,  Sandra S. Morthens, markaðsstjóri, f.h. Krabbameinsfélagsins, Þórunn H. Jónasdóttir, framkvæmdastjóri, f.h. Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans, Rannveig Káradóttir, Sigríður Ágústsdóttir f.h. Guðrúnar S. Sigurðardóttur,  Halldór Smárason og Guðmundur Þorbjörnsson, stjórnarformaður Valitor.