Íslenska fyrirtækið Valitor hlaut tvöfalda viðurkenningu fyrir lausnir sínar á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni Card and Payment Awards sem fram fór í London í síðustu viku. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að hátíðinni hafi þeir aðilar og verkefni verið verðlaunuð, sem þyki hafa skarað fram úr á Bretlandi og Írlandi síðastliðið ár á sviði korta- og greiðslulausna, en sérstök áhersla er lögð á snjalla útfærslu hugmynda og nýsköpun.

Útgáfuverkefni Valitor voru tilnefnd í tveimur flokkum, Corporate Pay fyrir bestu fyrirtækjalausnina og Citizen Card fyrir besta nýja verkefnið á sviði fyrirframgreiddra korta. Niðurstaðan varð sú að Valitor sigraði í báðum þessum flokkum. Að mati óháðra sérfræðinga bar CitizenCard af sem besta nýjungin á sínu sviði og Corporate Pay þótti skara fram úr á sviði fyrirtækjalausna en um er að ræða sýndarlausn þar sem Valitor er bæði útgefandi og vinnsluaðili Visa korta.