Hátæknifyrirtækið Valka var valið fyrirtæki ársins á Nýsköpunarþingi 2013. Verðlaunin voru afhent á Grand hótel Reykjavík. Valka sérhæfir sig í hönnun og markaðssetningu á framsæknum tækjabúnaði og hugbúnaði fyrir fiskiðnaðinn, s..s. beinaskurðarvélum. Nýjasta vél fyrirtækisins sker beinabarð úr litlum fiskflökum, sem áður voru seld með beini. Það eykur afurðaverðmætið. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, afhenti Helga Hjálmarssyni, framkvæmdastjóra Völku, verðlaunin í morgun.

Á Nýsköpunarþinginu kom m.a. fram að Ísland virðist standa sig þokkalega vel hvað varðar rammaskilyrði fyrir atvinnurekstur frumkvöðla í samanburði við hin Norðurlöndin, samkvæmt nýlegum rannsóknum og greiningu á norrænum hraðvaxtafyrirtækjum. Íslenskt reglugerðarumhverfi virðist vera hagstætt fyrirtækjarekstri, frumkvöðlamenningin góð og geta frumkvöðla til að reka fyrirtæki góð. Einkum eru tveir þættir sem skera sig úr og skora ekki nógu hátt. Aðgengi að fjármagni og skilyrði til sköpunar og dreifingar þekkingar sem hefur fallið úr 6 sæti árið 2008 í 14 sæti árið 2012.

Glenda Napier, umsjónaraðili rannsóknarinnar, flutti erindi um stöðu Íslands í norrænum samanburði hvað þetta varðar. Auk hennar fluttu þeir Patrik Backman og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, erindi um það hvernig það er að vera stjórnandi í hraðvaxtafyrirtæki og hvort og þá hvernig styðja megi betur við öran vöxt og velgengni.