Hátæknifyrirtækið Valka hefur hannað tvær nýjar tegundir af flokkurum sem eru sérstaklega ætlaðir fyrir samval og pökkun á lausfrystum afurðum og hafa margt umfram hefðbundna flokkara að bjóða. Frá þesu er greint í fréttatilkynningu.

Sjálfvirk innmötun og mestu afköst á fermetra

Annars vegar er um að ræða nákvæman og afar hraðvirkan bitaflokkara sem hægt er að fá með allt að fjórum brautum og þar með nást mestu mögulegu afköst á hvern fermetra í flokkun á lausfrystum afurðum. Flokkarinn notar bæði flæðivogir og tölvusjón til að flokka eftir þyngd og stærð. Mögulegt er að hafa alsjálfvirka innmötum frá frysti eða mata flokkarann á hefbundinn hátt. Flokkarinn fer jafnframt einstaklega vel með vörurnar en í stað hefðbundinna kastarma þá renna bitarnir mjúklega í kör eða kassa.

Samvals- og pökkunarróbót sem eyðir yfirvigt

Þá hefur Valka einnig þróað samvals- og pökkunarróbót sem velur saman og pakkar frystum flökum eða bitum í kassa með mun meiri nákvæmni en þekkist og sparar þannig verðmæta yfirvigt. Umfram hefðbundinn samvalsflokkara sem þekkir eitt stykki á leiðinni þá þekkir pökkunarróbótinn raunverulega þyngd fjölmargra stykkja sem eru á leiðinni og getur þannig tekið miklu betri ákvörðun um í hvaða kassa hvert stykki fer. Flokkarinn er jafnframt einstakur að því leyti að hver biti er fluttur á sérstakri grind áður en hann er lagður mjúklega í kassann sem fer vel með vöruna.