Athugasemdir bárust frá hagsmunaaðilum í þremur heimsálfum vegna samruna Marels og Völku. Samkeppniseftirlitið telur ekki tilefni til íhlutunar í samrunann meðal annars með hliðsjón af því að viðskiptavinir félaganna eru veltumikil fyrirtæki sem mörg hver eru í þeirri aðstöðu að veita sameinuðu félagi aðhald.

Umræddur samruni var tilkynntur en áður en til tilkynningar kom höfðu félögin verið í forviðræðum við eftirlitið með það að marki að hraða meðferð málsins. Töldu þau að markaðir málsins væru alþjóðlegir en ekki aðeins innlendir. Í kjölfar athugasemda sem bárust á fyrsta fasa leiddu til þess að forviðræðurnar nýttust ekki til að hraða málinu.

Fyrir lá að eigendur Völku þrýstu mjög á að málið fengi skjóta úrlausn og sóttu félögin meðal annars um að fá að framkvæma samrunann áður en samþykki eftirlitsins lá fyrir. Slíka heimild má aðeins veita ef ljóst þykir að tafir á framkvæmd hans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptavini þess þannig að samkeppni sé stefnt í hættu. Sú heimild fékkst ekki.

Við meðferð málsins átti Samkeppniseftirlitið símtöl við níu viðskiptavini félaganna tveggja sem keypt höfðu vatnsskurðarvélar af þeim. Í þeim kom fram að félögin væru þau einu sem seldu vatnskurðarvélar tengdar röntgentækni fyrir fisk á heimsvísu og að Marel kæmist í einokunarstöðu á innanlandsmarkaði.

„Þá kom fram í samtölunum að rannsóknir og þróun á vélunum skipti miklu máli og með samrunanum verði til sterkara fyrirtæki sem fyrirtækin hefðu væntingar til að gætu þróað betri vörur. Vélarnar væru enn í þróun og langt væri í að til yrði stöðluð vara sem unnt væri að keppa um verð í. Þá kom fram að viðskiptavinir myndu leita til erlendra fyrirtækja ef fyrirtæki hér á landi uppfylltu ekki þarfir þeirra þegar kæmi að vöruframboði, verði eða gæðum,“ segir í ákvörðuninni um athugasemdir hagsmunaaðila.

Sökum stærðar viðskiptavina innanlands og aðhalds erlendis frá taldi eftirlitið ekki tilefni til íhlutunar í samrunann. Rétt er að geta þess að sökum þess hve langt Marel teygir sig hafði eftirlitið samband við systurstofnanir og kannaði hvort þær hefðu hug á því að taka samrunann til skoðunar. Svarbréf að utan voru á þá leið að stofnanirnar ætla ekki að taka samrunann, sem er undir erlendum veltumörkum, til skoðunar að sínu frumkvæði.