Jón Birgir Gunnarsson hefur tekið við sem sviðstjóri sölu- og markaðssviðs hátæknifyrirtækisins Völku, en hann hefur starfað hjá félaginu frá því í haust. Jón Birgir hefur mikla reynslu úr greininni og hefur meðal annars tekið þátt í vexti og alþjóðavæðingu fyrirtækja eins og Marel, Controlant og Skagans 3X.

Þá tekur Kristján Hallvarðsson, sem verið hefur sviðstjóri sölu- og markaðssviðsins, við nýrri stöðu sem vinnsluráðgjafi. Hann hefur yfir þrjátíu ára reynslu af störfum við tæknilausnir, þróun og framleiðsluferla í matvælaiðnaði.

Bakgrunnur Kristjáns er fjölbreyttur en hann hefur komið að innleiðingum, vöruþróun, vörustjórnun og þjónustu, hönnun framleiðsluferla og starfaði lengi sem þróunarstjóri hjá Marel áður en hann gekk til liðs við Völku.

Markmið þessara skipulagsbreytinga hjá Völku er bæði að auka við þjónustu til viðskiptavina sem og að tryggja meiri og dýpri þekkingu innan Völku á framleiðsluferlum í fiskiðnaði ásamt því að styðja við vöxt félagsins segir í tilkynningu.

Innleiðing hátækni í framleiðslu á fiski kallar á aukna sérþekkingu sem er ekki endilega til staðar innan framleiðslufyrirtækjanna þegar kemur að uppsetningu og hámörkun núverandi framleiðsluferla. Með auknum umsvifum erlendis fundu stjórnendur Völku fyrir aukinni eftirspurn og þörf á að auka þekkingu og framboð innan fyrirtækisins á þessari þjónustu.

„Þessar skipulagsbreytingar munu styrkja fyrirtækið og gefa okkur færi á að gera enn betur gagnvart viðskiptavinum okkar. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur þar sem unnið er að krefjandi verkefnum,” segir Helgi Hjálmarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Völku.

„Áhersla Völku verður áfram á nýsköpun og sveigjanleika og munum við halda í þau nánu tengsl við viðskiptavini okkar sem eru eitt þeirra atriða sem hafa leitt að sér vöxt fyrirtækisins síðustu ár.“

Valka var stofnað árið 2003 og sérhæfir sig í hátæknilausnum í sjávarútvegi og hefur meðal annars verið leiðandi í þróun á vatnsskurðarvélum. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári. Valka býður upp á vörulínur fyrir bæði hvítfiskvinnslu og laxavinnslu. Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum.