*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Innlent 25. september 2019 09:54

Valka selur fyrir 550 milljónir

Norska sjávarútvegsfyrirtækið Båtsfjordbruket kaupir framleiðslubúnað af Völku fyrir fjórar milljónir evra.

Ritstjórn
Úr samsetningarsal Völku í Vesturvör í Kópavogi. Mynd/Valka

Norska sjávarútvegsfyrirtækið Båtsfjordbruket hefur samið við íslenska hátæknifyrirtækið Völku um kaup á sjálfvirkum framleiðslubúnaði og er kaupverðið um fjórar milljónir evra. Um er að ræða tvöfalda vinnslulínu til þess að snyrta, skera, dreifa og pakka fullunnum fiskafurðum, að því er segir í tilkynningu frá Völku. 

„Það er mikill heiður fyrir okkur hjá Völku að taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni og aðstoða Båtsfjordbruket við að ná markmiðum sínum”, segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Völku í Noregi. „Árið 2015 settum við upp hjá þeim, sjálfvirkt kerfi fyrir flokkun og pökkun á heilum fiski og er þetta rökrétt næsta skref inn í framtíðina fyrir þau.“

Greint er frá því í tilkynningunni að samhliða aukinni eftirspurn eftir ferskum fiski í heiminum hafi kröfur neytenda um sérvörur og vörur sem eru tilbúnar til sölu beint til neytandans og það leitt til þess að framleiðsluferlið sé nú flóknar en nokkru sinni fyrr. 

„Nýjar framleiðslulínur frá Völku gera okkur kleift að auka hæfni okkar og þjóna viðskiptavinum okkar á sem bestan hátt. Ennfremur bæta þær samkeppnishæfni okkar á markaði sem gerir sífellt meiri kröfur,” segir Frank Kristiansen, forstjóri Båtfjordbruket.

Båtsfjordbruket er dótturfyrirtæki norsku sjávarútvegssamstæðunnar Insula AS og var stofnað árið 1981. Fyrirtækið á sér langa sögu í sölu og fullvinnslu á fiski.

Valka var stofnað árið 2003 og sérhæfir sig í hátæknilausnum í sjávarútvegi og hefur meðal annars verið leiðandi í þróun á vatnsskurðarvélum. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári. Valka starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum.