*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 14. nóvember 2018 09:23

Valka setur upp vinnslu í Múrmansk

Valka semur um 1,3 milljarða króna hátæknivinnslu í Rússlandi sem vinna á úr 50 tonnum á dag.

Ritstjórn
Helgi Hjálmarsson er framkvæmdastjóri Völku
Haraldur Guðjónsson

Valka hefur samið við Murman Seafood um hönnun og uppsetningu á nýrri hátæknifiskvinnslu í borginni Kola í Murmansk í Rússlandi. Fiskvinnslan er fyrsta sinnar tegundar í landinu og verður tæknilegasta bolfiskvinnslan í Rússlandi að uppsetningu lokinni. 

Valka mun hafa yfirumsjón með verkefninu en auk Völku koma fleiri tækjaframleiðendur að uppsetningu vinnslunnar. Heildar samningurinn hljóðar upp á 1,3 milljarða króna. Murman Seafood gerir út sex frystitogara og er eitt þeirra fyrirtækja sem fékk úthlutað viðbótarkvóta hjá rússneskum yfirvöldum gegn því að fjárfesta í landvinnslu.

Vinnsluhúsið sem byggt verður frá grunni verður búið nýjustu tækni og tækjum og þar á meðal eru sjálfvirkar beina- og bitaskurðavélar frá Völku. Með nýja vinnslukerfinu gefst Murman Seafood tækifæri til þess að hámarka verðmæti þeirra 50 tonna af hráefni sem áætlað er að vinna í nýju vinnslunni á degi hverjum.

Fram að þessu hefur hráefnið að mestu leyti verið selt heilfryst en með þessari fjárfestingu getur fyrirtækið boðið upp á ferskar hágæða vörur sem eru tilbúnar á neytendamarkað. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í rúmlega eitt ár og er gangsetning áætluð síðla sumars 2019.

Fyrsta verkefni sinnar tegundar hjá Völku

Helgi Hjálmarsson framkvæmdastjóri Völku ehf. segir það hafa verið mjög ánægjulegt að vinna að undirbúningi að þessu verkefni með Murman Seafood.  „Þetta er fyrsta verkefni þessarar tegundar hjá Völku og stefnum við að því að þróa starfsemi okkar enn frekar í þessa átt,“ segir Helgi.

„Ávinningurinn af því að einn aðili sjái um allan tækjabúnað í stað fjölmargra fyrirtækja er að flýta vinnsluferlinu og sjá til þess að flæðið í vinnslunni sé með sem bestu móti.  Með þessari nálgun verður vinnslan sú tæknilegasta í Rússlandi, framleiðinin hámörkuð og fiskurinn skorinn með þeim hætti að verðmæti hans sé sem mest.“

Denis V. Khiznyakov framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Murman Seafood segir félagið mjög ánægt með samstarfið við Völku. „Vinnslulínan frá þeim er sú fullkomnasta sem er í boði í dag og mun skapa okkur ákveðna sérstöðu,“ segir Khiznyakov.

„Með byggingu á þessari hátækniverksmiðju erum við að bregðast við þörfum markaðarins og bæta samkeppnisstöðu okkar á alþjóðamarkaði. Við munum áfram framleiða hefðbundar flakaafurðir en einnig hefja framleiðslu á bitum sem kallar á aukinn sveigjanleika og tæknistig í vinnslunni. Afurðirnar okkar verða seldar bæði innanlands og til útflutnings.“