Grétar Jón Elfarsson er stofnandi nýrrar starfsmannaþjónustu, Staff.is. Hann segir að hugmyndin hafi þróast út frá öðru félagi. „Þetta fyrirkomulag er þekkt erlendis frá. Í Bretlandi og Bandaríkjunum kallast þessi þjónusta „ temp agency “ og í Danmörku hafa margir Íslendingar prófað að starfa hjá „ vikar þjónustu ,“ segir Grétar.

„Þá ákvað ég að stofna fyrirtækið Staff Connections. Það felst í þessu ákveðið hagræði fyrir fyrirtæki og viðbragðstími vegna ófyrirsjáanlegra forfalla hjá þeim styttist.

Þarfir starfsfólks varðandi frí­ tíma, fæðingarorlof og önnur leyfi er að breytast með nýrri kynslóð á vinnumarkaðnum. Staff.is er með lausn fyrir fyrirtækin til að koma betur til móts við starfsfólk sitt þegar hægt er að ráða fólk í öll störf í afleysingar. Staff. is vinnur eins og ráðningastofur, fólk sækir um ákveðin störf, kemur til okkar í atvinnuviðtal, við leitum umsagnar um fólk og staðfestum réttindi og þekkingu eftir bestu getu,“ bætir hann við.

„Ef það smellur saman þá er komið deit“

Alls kyns einstaklingar með ólíkan bakgrunn hafa skráð sig inn á vefsíðuna og segir Grétar að fyrirtækið hafi til að mynda ráðið skattalögfræðing sem fór í uppskipun og vídeólistakonu sem vann í mötuneyti.

„Við sjáum fyrir okkar að þetta geti hentað bæði fólki og fyrirtækjum í öllum starfsgreinum, ófaglærðu og faglærðu fólki, sérfræðingum og stjórnendum. Það geta allir skráð sig inn á síðuna, sagt frá reynslu sinni og þekkingu og hverju þeir hafa áhuga á. Að sama skapi geta öll fyrirtæki leitað til okkar eftir starfsfólki. Þau útlista hvaða kröfur einstaklingurinn þarf að uppfylla, ef það smellur saman þá er komið deit,“ segir Grétar.

Vopn í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi

Grétar segir þjónustuna ákveð­ið vopn í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi. Hann segir betra að hringja í Staff.is til að hafa þetta allt upp á borði.

„Þegar fólk kemur fyrst til okkar þá er skrifað undir opinn ráðningarsamning. Það ræður sig í vinnu til okkar eftir því sem því hentar og þau geta. Hagsmuna fólks er gætt og það safnar öllum sínum réttindum,“ segir Grétar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.