*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 22. janúar 2020 12:05

Valli Sport gerist eggjabóndi

Valli Sport ætlar að verða eggjabóndi í Hrísey meðfram vinnu sinni í auglýsingageiranum.

Ritstjórn
Eggjabóndinn Valli Sport.
Aðsend mynd

Athafnamaðurinn Valgeir Magnússon eða Valli Sport, eins og hann er oft kallaður, hefur fjárfest í eggjabúi í Hrísey og ætlar að verða eggjabóndi meðfram vinnu sinni í auglýsingageiranum. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Valgeir mun hefja sölu á eggjum frá nýju eggjabúi sínu Landsámsegg ehf í næstu viku.

„Við hjónin eigum hús í Hrísey en þar býr félagi minn Kristinn Árnason sem kom með þá hugmynd að safna saman matarafgöngum eyjaskeggja og vera með eggjabú eingöngu með landnámshænum. Þannig myndum við breyta matarafgöngum í mat. Mér þótti þetta frábær hugmynd og vildi vera með. Frá þeim tíma höfum við verið að vinna í þessu verkefni og höfum fjárfest í góðu húsnæði fyrir eggjabúið. Við erum búnir að vera að gera gott útisvæði, setja upp fóðurlínu og sjálfvirka varpkassa svo eggin þurfi ekki neinn þvott. Við viljum hafa þetta eins náttúrulegt og hægt er. Fjölskyldur okkar hafa líka lagt mikla vinnu með okkur í að ná þessu öllu saman. Núna er þetta svo að verða tilbúið og umbúðir klárar, svo þetta er allt að gerast,“ segir Valgeir um verkefnið en Valgeir er aðallega þekktur fyrir vinnu sína í auglýsingageiranum hjá Pipar\TBWA auglýsingastofu, þáttagerð, bókaskrif og tónlistarsmíði.

„Þetta var eitthvað svo spennandi og ég hef alltaf haft áhuga á að framleiða og sérstaklega matvæli. Ég var í sveit í sjö sumur sem krakki og unglingur svo ég hef alltaf haft áhuga á dýrahaldi og vinnu í kringum það. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á matvælum, matargerð og næringu. Einnig er sjálfbærni og hvernig við getum skilað af okkur betri heimi en við tókum við honum mér hugleikið. Þarna finnst mér ég ná að sameina þetta allt ásamt því að byggja upp starfsemi í Hrísey sem er eyja sem þarf fjölbreyttari atvinnumöguleika en eru þar nú. Nú er bara að sjá hvernig þetta þróast en við höfum áhuga á að reyna með einhverjum hætti að tengja ferðatengda þjónustu við þetta í framtíðinni,“ segir Valli.

Pakkningar eggjanna eru nokkuð óvenjulegar, þríhyrndar og rúma sjö egg. Eggin munu koma í sölu Fjarðakaupum í næstu viku. „Fjarðakaup hefur fest kaup á nánast öllu sem við getum framleitt á næstunni svo við munum ekki geta annað öðrum verslunum fyrst um sinn. Eggin munu einnig fást á Akrueyri og að sjálfsögðu í Hrísey,“ segir Valli ennfremur.

Stikkorð: egg Hrísey Valli Sport