Sjálfstjórnarhérað frönskumælandi íbúa Belgíu, Vallonía, hefur sett fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Kanada í uppnám, með því að hafna samningnum en skrifa átti undir samninginn í næstu viku.

Samningar í uppnám eftir 7 ára samningaferli

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagði þetta vandamál sem Evrópubúar þyrftu að leysa í kjölfar fundar í Brussel með viðskiptaráðherra Kanada, Christia Freeland sem sagði að ,,kominn væri tími til að Evrópa kláraði vinnuna sína." Sagðist hún vonast eftir því að lausn á upphlaupinu myndi nást.

Samningarnir fóru í uppnám í gær, föstudag, eftir sjö ára samningalotu um fríverslunarsamninginn sem gengur undir nafninu Comprehensive Economic and Trade Agreement (CETA). Vallonía, þar sem sósíalistar hafa löngum haft sterk ítök, óttast áhrifin á bændur og velferðarkerfið sem dæmi.

Áhyggjur af atvinnuöryggi

Stjórnvöld í Walloníu nýttu sér stjórnarskrárbundinn rétt samkvæmt Belgískum lögum til að fá skýrari svör um áhrif á atvinnuöryggi, umhverfismál og neytendastaðla í samningunum.

Schulz sagðist vera bjartsýnn að lausn fyndist á vandanum. Í Valloníu búa 3,6 milljón manns, en í ESB löndunum búa samanlagt 508 milljón manns. Í Kanada búa 36,3 milljónir.

Eykur verslun um fimmtung

Með samningunum myndu 98% allra tolla á milli Kanada og ESB falla niður og segja stuðningsmenn samningsins að hann muni auka verslun milli svæðanna um 20%.

Gagnrýnendur segja samninginn muni lækka gæðakröfur og vernda stórfyrirtæki, sem fái með honum tæki til að fara í mál við stjórnvöld.