Valmundur Valmundsson staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að slitnað hefði upp úr samningum sjómanna við útgerðarmenn.

„Það var blásið til fundarherferðar um landið síðustu daga meðal sjómannaforystunnar, þar sem mönnum var kynnt það sem var komið og það sem var eftir og rætt hvað menn vildu gera," segir Valmundur sem segir niðurstöðu fundanna hafa verið skýra.

„Menn vildu halda öllu til streitu sem ákveðið var að fara fram með, þannig er staðan og meðan útgerðarmenn eru ekki tilbúnir að koma til móts við þessar réttlátu kröfur sjómanna þá er deilan bara í hnút."

„Erum ekki að semja við ríkið“

Valmundur segir deiluna annars vegar snúa að þátttöku sjómanna í olíukostnaði og hins vegar um bætur fyrir sjómannaafsláttinn sem var afnuminn fyrir tveimur árum.

„Við erum ekki að semja við ríkið, við erum að semja við útgerðina, en við sækjum sjómannaafsláttinn á þá," segir Valmundur. „Fullar bætur fyrir sjómannaafsláttinn þýðir eitthvað um 2.000 krónur á dag, fyrir hvern sjómann, á hverjum degi á sjó."

Ekki á ábyrgð sjómanna

Í fréttatilkynningu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna vilja samtök sjómanna koma eftirfarandi á framfæri

„Samninganefndir sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands lýsa yfir vonbrigðum að slitnað hefur uppúr viðræðunum.

Ofangreind samtök sjómanna vísa því til föðurhúsanna að það sé á ábyrgð sjómanna að sundur gekk. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi treystu sér ekki að koma til móts við sanngjarnar og réttlátar kröfur sjómanna til lausnar deilunni.

Mikil og góð vinna hefur farið fram í samninganefndum sjómanna og útvegsmanna.  Samskiptin hafa verið til fyrirmyndar og samninganefndirnar náð ágætlega saman.

Góður árangur hefur náðst í nokkrum kröfum að mati samninganefndanna. Útvegsbændur eru ekki tilbúnir að koma til móts við meginkröfur sjómanna og þess vegna er málið komið á það stig að viðræður eru strand.

F.h. samninganefnda sjómanna
Valmundur Valmundsson“