*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 21. nóvember 2020 11:04

Valsfélag ekki undanþegið tekjuskatti

Félagið B reitur ehf. taldi sig ekki þurfa að greiða tekjuskatt þar sem það ráðstafaði hagnaði sínum til almannaheilla.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Jónasson

Breitur ehf., félag í eigu Hlíðarenda ses., uppfyllir ekki skilyrði skattalaga til að vera undanþegið greiðslu tekjuskatts á þeim grunni að félagið ráðstafi hagnaði sínum eingöngu til almannaheilla. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar (YSKN) sem staðfesti með því niðurstöðu Skattsins.

Hlíðarendi er sjálfseignarstofnun en markmið hennar samkvæmt samþykktum er að „halda utan um, byggja upp, varðveita og viðhalda þeim eignum og réttindum er stofnuninni tilheyra í þágu vaxtar og viðgangs Knattspyrnufélagsins Vals“. Talsverðar upphæðir hafa runnið frá stofnuninni til Vals í gegnum árin, til að mynda styrkti stofnunin íþróttafélagið um rúmlega 278 milljónir króna á síðasta ári.

Eignir stofnunarinnar voru metnar á 841 milljón króna í ársbyrjun en meðal þeirra er B reitur. Eins og nafnið gefur til kynna hefur það staðið að uppbyggingu íbúða á svokölluðum B reit við Hlíðarenda. Samkvæmt samþykktum félagsins, eins og þeim var breytt í júlí 2018, er tilgangur þess að styðja íþróttastarfsemi Vals og gera hluthafar ekki arðsemiskröfu á það. Verði hagnaður af rekstri þess verður honum aðeins úthlutað í samræmi við þann tilgang og við slit þess ber að úthluta eignum til eiganda. Atvinnugreinaflokkun B reits er hins vegar „[ö]nnur ótalin fjármálaþjónustu, þó ekki vátryggingafélög og lífeyrissjóðir“.

Eftir að sú breyting var gerð á samþykktum fór B reitur fram á það við Skattinn að félagið yrði undanþegið tekjuskattsskyldu á þeim grunni að hagnaður af rekstrinum rynni til almannaheilla. Samkvæmt því ætti skattstofn að ákvarðast núll í stað 22,2 milljóna króna.

Hægt að breyta samþykktum

Þetta var Skatturinn ekki tilbúinn að fallast á. Fyrir það fyrsta var alveg ljóst að bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, til sölu á almennum markaði í samkeppni við aðra aðila, gæti eðli málsins samkvæmt ekki talist í þágu almannaheilla. Vafamál um undantekningar frá skattskyldu væru vanalega túlkaðar þröngt og því þyrfti að vera kristaltært að hagnaður félagsins rynni til Vals og þar með almannaheilla. Það taldi Skatturinn ekki uppfyllt þar sem 2/3 atkvæða hluthafafundar gætu breytt samþykkt um tilgang félagsins, ráðstöfun hagnaðar og eigna. Þar að auki væri ráðstöfunin líkleg til að skekkja stöðu samkeppnisaðila í fasteignabransanum.

Þessu vildu Valsmenn ekki una og bentu á að tekjuskattslöggjöfin gerði ráð fyrir því að einkahlutafélög gætu verið undanþegin skattskyldu á þessum grunni þrátt fyrir að reglur félagaréttarins gerðu ráð fyrir því að unnt væri að breyta samþykktum slíkra félaga. Niðurstaða Skattsins væri síðan í andstöðu við úrskurðaframkvæmd YSKN í gegnum árin.

Í málatilbúningnum fyrir YSKN var meðal annars vísað til úrskurðar nefndarinnar frá árinu 1996. Þar var samlagsfélag sem framleiddi auglýsingar fyrir felliskilti en hagnaði af rekstrinum bar samkvæmt samþykktum að ráðstafa til eflingar íþróttafélags. Taldi félagið sig þar með undanskilið tekjuskattskyldu. Að mati nefndarinnar stóð það ekki í vegi undanþágunnar að hagnaðinum skyldi varið til tiltekins íþróttafélags í ákveðnu bæjarfélagi og þá þótti ekki óeðlilegt að stjórn samlagsfélagsins hefði ákvörðunarvald um úthlutun styrkja í hendi sér. Var því fallist á kröfu félagsins um undanþágu frá tekjuskattskyldu.

Frábrugðið eldra máli

„Taka verður undir með það með ríkisskattstjóra að gera verði ríkar kröfur til afmörkunar á tilgangi lögaðila og ráðstöfun hagnaðar til almenningsheilla þannig að til skattfrelsis geti komið […]. Á þetta ekki síst við þegar eiginleg starfsemi lögaðila miðar sem slík ekki að almenningsheill, eins og við á í tilviki kæranda sem hefur með höndum byggingu og sölu íbúða á almennum markaði í samkeppni við skattskylda aðila […]. Eru atvik málsins að þessu leyti í grundvallaratriðum frábrugðin atvikum í [málinu frá 1996 sem vitnað hefur verið til],“ sagði í úrskurði YSKN nú.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér