Skuldir Valsmanna ehf., fjárhagslegs stuðningsaðila knattspyrnuliðsins Vals, eru 2,7 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi 2008. Á sama tíma metur félagið einu eign sína, lóðasamninga vegna byggingarlands við Hlíðarenda, íþróttasvæði Vals, á 2,6 milljarða króna.

Ekki hefur verið gefið út deiliskipulag fyrir svæðið og ekkert hefur verið byggt á því, en til stóð að byggja þar íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Lítil sem engin eftirspurn er eftir slíku húsnæði í dag enda framboð langt fram yfir eftirspurn. Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður staðfestir að lóðaleigusamningarnir hafi enn ekki verið gefnir út vegna skipulagsvinnu á svæðinu.

Valsmenn ehf. færðu allar eignir og skuldir sem fylgja umræddum lóðakaupum inn í dótturfélag, sem kallast Hlíðarfótur ehf. Samkvæmt ársreikningi þess félags er virði einu eignar þess, lóðaleigusamningarnir sem hafa ekki enn verið gefnir út, 2,6 milljörðum króna í árslok 2008 og hafði virðið þá aukist um 900 milljónir króna á einu ári. Skuldirnar, sem eru við Frjálsa fjárfestingabankann, námu 2,7 milljörðum króna.

Misstu af góðærinu Brynjar Harðarson, stjórnarformaður Valsmanna ehf., segir skuldastöðuna miða að byggingarlandið sé allt afgreitt og búið að afhenda það. Hann segir að skuldastaðan muni ekki hindra áætlanir Valsmanna ehf. um uppbyggingu á landinu, þó að hann viðurkenni að félagið sé að berjast við mjög erfiðar aðstæður í því máli. „Þessi töf hefur gert það að verkum að við misstum af öllu góðærinu með þetta. En þetta er samt mjög verðmætt land miðsvæðis í Reykjavík. Tíminn líður og það koma aðrir tímar. Ég er bjartsýnn á að okkur takist að finna lausn á þessu.“

Sjá frekari umfjöllun um um Valsmenn ehf. í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag.