*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 11. apríl 2019 08:48

Valur hagnast um 85 milljónir

Fjárhagsleg umsvif Vals og FH eru áberandi mest meðal íslenskra knattspyrnuliða samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins.

Ingvar Haraldsson
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH og Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals, eigast við. Liðin voru þau tekjuhæstu á síðasta ári.
Kristinn Magnússon

Knattspyrnudeild Vals hagnaðist um 85 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður Vals var áberandi mestur meðal íslenskra knattspyrnuliða í tveimur efstu deildum landsins á síðasta ári samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins. Almennt má segja að rekstur knattspyrnuliðanna sé þungur. Sex lið í Pepsi-deildinni voru rekin með tapi í fyrra og eigið fé þriggja liða var neikvætt um áramótin. Hjá öðrum sex liðum nam eigið féð átta milljónum króna eða minna um áramótin.

Rekstur Vals og FH er umsvifamestur íslenskra knattspyrnuliða. Tekjur Vals vegna meistaraflokka karla og kvenna og 2. flokks námu 360 milljónum króna á síðasta ári. Hjá FH námu tekjur meistaraflokkanna 350 milljónum króna, en þar af námu tekjur meistaraflokks karla 330 milljónum króna. Verulega dró saman milli tekna FH og Vals í fyrra. Í tilfelli FH lækkuðu tekjur milli ára um 20 milljónir króna en jukust um 140 milljónir króna hjá Val.

Samantekt Viðskiptablaðsins byggir á ársreikningum eða fjárhagsupplýsingum frá félögunum. KSÍ gerir nú, í fyrsta sinn, kröfu um að öll félög í tveimur efstu deildum hér á landi birti opinberlega ársreikninga knattspyrnudeilda.

Nánar er fjallað um afkomu íslenskra knattspyrnuliða í  nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Knattspyrna Valur FH