Valur Valsson og Magnús Gunnarsson höfðu samband við Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna, áður en ríkisstjórnarskiptin urðu og lýstu yfir áhuga á því að hætta sem formenn bankaráða Glitnis og Kaupþings. „Ég bað þá um að bíða með allt slíkt og ræða við mig eftir að stjórnarskiptin hefðu orðið," sagði Steingrímur í umræðum á Alþingi í dag.

Hann sagði að þeir Valur og Magnús hefðu komið aftur til sín eftir stjórnarskiptin en þá hefði hann beðið þá um að hugsa sinn gang „og ég áskildi mér rétt til að biðja þá um að sitja hér áfram."

Steingrímur sagði að þannig hefðu mál staðið, þegar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði komið upp á Alþingi í vikubyrjun og spurt núverandi forsætisráðherra út í breytingar á bankaráðunum. „Þegar þeir höfðu svo bréflega óskað eftir því að hætta bað ég þá að minnsta kosti um að sitja fram yfir aðalfundi bankanna," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í umræðum á þingi í dag.

Sjálfstæðismenn mígi í alla brunna

Steingrímur gagnrýndi því næst sjálfstæðismenn fyrir að halda því fram að stjórnarflokkarnir stæði í einhverjum hreinsunum. Slíkar sögur væru með öllu tilhæfulausar.

„Ég verð að segja að ég er undrandi yfir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja sitt af mörkum með alls kyns flugeldasýningum og látum hér í þingsalnum. Það einfaldlega birtist manni þannig að Sjálfstæðislokkurinn mígi í alla brunna sem hann sér og kveiki í öllu heyi sem hann finnur. Það er hans framlag [...] til stöðugleika í landinu," sagði Steingrímur og bætti við:

„Er það virkilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi meiri áhyggjur af atvinnu tveggja til fjögurra flokksgæðinga heldur en atvinnuleysi þrettán til fjórtán þúsund manns?"

Steingrímur sagði að ný ríkisstjórn hefði gert meira á tíu dögum en fyrri ríkisstjórn á mánuðum.