Valur Valsson, fráfarandi formaður bankaráðs Nýja Glitnis, sem fyrr í dag sendi fjármálaráðherra bréf ásamt Magnúsi Gunnarssyni, formanni bankaráðs Nýja Kaupþings þar sem þeir sögðu sig úr stjórnum bankanna, segir þá hafa tekið sjálfstæða ákvörðun um afsögn sína.

Í bréfi þeirra til fjármálaráðherra kemur fram að í báðum stjórnarflokkum nýrrar ríkisstjórnar séu uppi óskir um mannabreytingar í stjórnum bankanna og í gær hafi forsætisráðherra staðfest að það væri til umræðu.

Aðspurður hvort Valur hafi verið beittur pólitískum þrýstingi  til að láta af störfum segir Valur svo ekki vera.

„Okkur er ljóst að það er umræða um breytingar á bankastjórnunum,“ segir Valur í samtali við Viðskiptablaðið og vísar í bréf þeirra Magnúsar.

„Við viljum einfaldlega gefa svigrum til að þessar breytingar geti átt sér stað.“