Íslenski markaðsdagurinn verður haldinn hátíðlegur með veglegri ráðstefnu í Hörpu föstudaginn 21. febrúar næstkomandi. ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, stendur fyrir viðburðinum. Það verður nóg um að vera hjá markaðsfólki á föstudaginn því um kvöldið verður síðan Lúðurinn, Íslensku markaðsverðlaunin, afhentur í Hörpu.

„Þetta verður mjög stór dagur hjá íslensku markaðsfólki. Við munum bjóða upp á virta erlenda fyrirlesara sem munu flytja ólík en afar áhugaverð erindi m.a. um magnaða vörubílaauglýsingarnar fyrir Volvo, hvernig Target skipuleggur sín markaðsmál og hvernig hægt er að gera svitlyktareyði að upplifun. Við ætlum að fræðast um hvernig á að fá meira út úr þeim fjármunum sem settir eru í markaðssetningu og að endurhugsa þau mörk sem fyrirtækið hefur skapað sér,“ segir Klara Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK, í tilkynningu. Hún bætir við að spennandi verði að sjá Claude Van Damme fara í splitt á ÍMARK deginum.

Erlendu fyrirlesararnir eru allir mjög þekktir í sínum geira. Gabor George Burt er þekktur frumkvöðull á sviði nýsköpunar, hönnunar og stefnumótunar og hefur unnið fyrir mörg vörumerki t.d. Mastercard í London, Microsoft, Nokia ofl. Hann mun fjalla um þá sýn sína að sama hversu farsælt fyrirtæki sé í dag þá starfi það engu að síður innan sjálfskapaðra marka.

Aðrir fyrirlesarar eru Ruth Balbach, hjá bandarísku verslunarkeðjunni Target, Ed Hebblethwait, stefnumótunarsérfæðingur og meðeigandi í Seymourpowell, Peter Lundberg og Kaj Johansson, eigendur og stjórnendur Kapero ráðgjafastofunnar, og Martin Ringqvist, hönnunarstjóri og meðeigandi hjá Forsman & Bodenfors í Gautaborg. Forsman & Bodenfors hefur unnið til fjölda verðlaun á öllum auglýsingahátíðum undanfarin misseri. Stofan var valin Acency of the Year bæði í Epica og Europest og er af mörgum talin ein heitasta stofan í heiminum í dag.

Hér má sjá auglýsingu Volvo