Vegna mistaka við fjárhagsáætlun í tengslum við stækkun móttökustöðvar á Gufunesi, og aukins kostnaðar við gas- og jarðgerðarstöð, bætist samtals 1.356 milljóna króna kostnaður við fjárhagsáætlun Sorpu.

Björn H. Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu, sem er í eigu bæjar- og borgarstjórna á höfuðborgarsvæðinu, segir að um óheppileg mistök hafi verið að ræða við gerð síðustu fjárfestingaráætlun fyrirtækisins. „Þau kalla á breytt vinnulag hjá okkur svo koma megi í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig,“ segir Björn.

„Til að bregðast við þessu stefnir fyrirtækið að því að draga úr fjárfestingum eftir því sem hægt er og semja við lánastofnanir um nýja fjármögnun. SORPA er stöndugt fyrirtæki og sú leið sem farin verður krefst ekki aðkomu sveitarfélaganna í formi nýrra stofnfjárframlaga.“

Stjórnarfundur félagsins samþykkti í dag tillögu Björns um breytingar á fjárfestingaáætlun félagsins fyrir árin 2019 til 2023 vegna viðbótarkostnaðar við verkefnin tvö sem fer nú í kynningar- og samþykktarferli hjá eigendum félagsins.

Gas- og jarðgerðarstöð nærri fimmtung fram úr áætlunum

Annars vegar er um að ræða 17,7% viðbótarkostnað við gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi sem ráðgert er að taka í notkun á næsta ári. Ný áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður við stöðina aukist um 637 milljónir króna frá þvi sem áætlað var í fjárfestingaáætlun 2019-2023, eða úr 3.610 milljónir króna í 4.247 milljónir króna.

Stærstur hluti viðbótarkostnaðar við gas- og jarðgerðarstöðina er vegna aukinnar jarðvinnu og meira magns byggingarefna en ráð var fyrir gert, sem meðal annars má rekja til þess að færa þurfti stöðina til á lóðinni í Álfsnesi og skipta út ófullnægjandi byggingarefni undir botnplötu. Þá eru verðbætur upp á 186 m.kr. hluti af þessum viðbótarkostnaði sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri áætlun.

Gleymdist að færa kostnað milli ára

Hins vegar er 719 m.kr. kostnaður vegna tækjabúnaðar í stækkaða móttökustöð SORPU í Gufunesi. Gert var ráð fyrir þessum kostnaði í áætlun SORPU fyrir árið 2018 en láðist að færa hann inn í fjárfestingaáætlun ársins 2019. Á móti kemur að byggingakostnaður vegna stækkunar stöðvarinnar, sem gert var ráð fyrir að yrði 605 milljónir króna, verður lægri eða á bilinu 361 til 418 milljónir króna.

Tillögur framkvæmdastjórans til að vinna úr stöðunni gera ráð fyrir að semja við lánastofnanir um skuldbreytingu og lengingu lána og að tekin verði ný lán upp á 990 milljónir króna til 15 ára. Einnig að frestað verði kaupum á hluta tækjabúnaðar í móttökustöðina í Gufunesi og að nokkrum öðrum óskyldum fjárfestingum verði frestað.

Á stjórnarfundi SORPU í morgun var bókað að fara þurfi yfir verkferla félagsins og var formanni og varaformanni stjórnar falið að fá óháðan aðila til að framkvæma úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta fund stjórnar.

Ætla að endurvinna 95% af heimilissorpi

Með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU verður hætt að urða lífrænan heimilisúrgang og plastefni á höfuðborgarsvæðinu en metangas- og jarðgerðarefni þess í stað unnin úr þeim. Stefnt er að því að yfir 95% af heimilissorpi á samlagssvæði SORPU verði endurunnið þegar stöðin er komin í gagnið. Með þessu er stigið mikilvægt skref í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna meðhöndlunar úrgangs.

Undirbúningur gas-og jarðgerðarstöðvarinnar hefur staðið lengi en verkið er unnið í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mótuðu með sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020. Skrifað var undir samning við danska fyrirtækið Aikan um tæknilausn fyrir stöðina 15. desember 2016 en tilboð í byggingu hennar voru opnuð 17. apríl 2018 og var samið við Ístak um verkið 13. júlí sama ár.

Fyrsta skóflustunga að stöðinni var tekin 17. ágúst 2018 og er áætlað að gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. verði komin í rekstur fyrri hluta árs 2020.  Þetta er stærsta verkefni Sorpu frá því fyrirtækið hóf starfsemi árið 1991. Ársframleiðsla stöðvarinnar verður annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi (samsvarar um 3,4 milljónum bensínlítra), sem hægt verður að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti til landgræðslu