Bókaútgáfan Crymogea hefur veriðstarfrækt frá árinu 2007 og frá fyrsta degi hefur þar á bæ verið lögð áhersla á vandaða sjónræna framsetningu við útgáfu fjölbreytilegra bóka. Að sögn Kristján B. Jónassonar, eiganda og útgáfustjóra Crymogeu, er kjarnastarfsemi útgáfunnar byggð á útgáfu listaverka- og ljósmyndabóka þótt starfsemin hafi víkkað nokkuð á þeim sjö árum sem Crymogea hefurverið til.

„Crymogea er nafn á bók eftir Arngrím Jónsson lærða sem kom út í Hamborg árið 1604 á latínu og þýðir bara Ísland,“ segir Kristján um nafn útgáfufyrirtækisins. „Með þessari nafngift vorum við að vitna í þessa hefð. Þetta er bók sem þú getur enn þá lesið þótt hún hafi verið prentuð árið 1604. Þannig að ef þú gerir eitthvað vel þá getur það enst í fjórar eða fimm aldir. Að vanda vel til verks er kjarninn í því sem við erum að gera,“ segir Kristján.

Útgáfa Crymogeu fyrir þessi jól er heldur fjölbreytt en þar má nefna útgáfu bókar um ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar og útgáfu á bókum með verkum myndlistarmannanna Hrafnkels Sigurðssonar og Birgis Snæbjörns Brigissonar auk útgáfu nýrrar bókar um bjór og bókar um Reykjavík sem aldrei varð.

Hann bætir því við að starfsemin krefjist öflugs samstarfs við alls kyns einstaklinga, stofnanir og söfn en sem áður sagði er kjarnastarfsemi Crymogeu útgáfa listaverkabóka. „Það hafði enginn farið út í svona útgáfu í þessum dúr á Íslandi þannig að mér fannst vera tækifæri til þess. Útgáfulistinn hefur byggst á því að búa til stóran katalóg – útgáfu sem er bæði á íslensku og ensku. Við höfum aðallega verið að vinna með íslenskum listamönnum en höfum verið að víkka sviðið út.“

Nánar er spjallað við Kristján í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .