Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, þarf að sannfæra markaði um að bankinn hafi bolmagn til að koma hagkerfi Evrópu aftur til hagvaxtar.

Að sögn fréttastofu Bloomberg er fastlega gert ráð fyrir því að bankinn muni lækka stýrivexti enn frekar á fundi bankans á morgun og einnig eru taldar vera yfirgnæfandi líkur á því að bankinn muni auka við örvunaraðgerðir sínar. Aðgerðirnar hafa þó ekki skilað miklum árangri. Á fyrsta ári aðgerðanna hefur sam-evrópska Stoxx 50 vísitalan lækkað um 17% og óstöðugleikinn hefur ekki verið meiri síðan árið 2008.

Fjárfestar eru nú farnir að óttast að bankinn ráði ekki við verkefnið, geti ekki kveikt undir hagvexti og náð fram hóflegri verðbólgu. Bankinn hefur þegar dælt um 720 milljörðum evra í fjármálakerfi Evrópu. Framleiðsla eru samt sem áður í lægsta gildi síðan árið 2013 og væntingar almennings versna. Greiningardeildir um alla álfuna hafa lækkað hagnaðarspár fyrirtækja og fjármagn hefur ekki yfirgefið eignamarkaði Evrópu jafn hratt síðan árið 2014. Slæmar tölur um útflutning í Kína hafa aukið á áhyggjur fjárfesta.

Ljóst er að margir bíða ákvörðunar Seðlabankans á morgun.