Markaðsvirði Icelandair hefur lækkað um 96% á síðustu fimm árum á sama tíma og vegin meðaltalslækkun á gengi hlutabréfa helstu samkeppnisaðila félagsins í Ameríku og Evrópu nemur aðeins um 9%, þrátt fyrir áhrif kórónuveirunnar.

Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og ráðgjafi hjá Boston Consulting Group, segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu að Icelandair hafi ekki verið samkeppnishæft síðustu fimm ár vegna þess að kostnaður félagsins sé of hár. 80% af lækkun markaðsvirðis félagsins hafi enda átt sér stað fyrir faraldurinn og hafi með félagið sjálft að gera, ekki ytri aðstæður.

Tap skýrist af kostnaði ekki tekjuþróun

Egill Almar skýrir frá því að einingakostnaður Icelandair hafi á tveggja ára tímabili, frá 2016 til 2018, hækkað um 17%. Á sama tíma hafi einingatekjur félagsins haldist nokkuð stöðugar. Þessi hækkun á kostnaði hafi leitt til þess að hagur félagsins snerist úr sterkum hagnaði í mikið tap.

„Stjórnendur Icelandair skýrðu þetta mikla tap síendurtekið á árunum 2017 til 2019 með því að fjalla um ósjálfbær fargjöld vegna samkeppni, tekjutaps vegna mistaka í leiðakerfi, endurskipulagningar á sölustarfi og fleira. Allt á þetta sameiginlegt að vera á tekjuhlið félagsins. En tölurnar segja aðra sögu. Einingatekjurnar voru stöðugar. Það var sögulegur hagnaður hjá samkeppninni á Atlantshafinu en tekjurnar þeirra þróuðust eins og hjá Icelandair," skrifar Egill Almar.

Stjórnendur Icelandair hafi hins vegar gert áætlanir um að fargjöld ættu að hækka umfram það sem var að gerast hjá samkeppninni, og þegar það stóðst ekki hafi ýmsu verið kennt um, öðru en lélegri áætlanagerð.

Stjórnendur Icelandair skilji ekki vandamálið

Öllu alvarlegra sé að það líti út fyrir að stjórnendur Icelandair hafi sannfært sig um að vandamálið væri tekjur en ekki kostnaðarhækkun.

„Það gefur til kynna að þeir hafi ekki skilið vandamálið. Að þeir hafi ekki skilið að viðskiptamódel Icelandair byggist á því að geta verið ódýrari en samkeppnin," skrifar Egill Almar.

Þá bendir hann á að áætlanir um lækkaðan kostnað byggi að stærstu leyti á því að olía verði ódýrari en hún hefur verið síðustu ár og gengið áfram veikt og að báðar forsendurnar séu nú þegar brostnar.

„Þetta eru ytri breytur sem Icelandair stjórnar ekki. Innri kostnaðarlækkun er lítil, líklega um 4% - þrátt fyrir nýja kjarasamninga. Til að ná samkeppninni, þarf þessi kostnaðarlækkun að vera 15-20%."

Icelandair sé ekki það beitta vopn sem Ísland þarf til að endurreisa ferðaþjónustuna miðað við núverandi stöðu. Vandamálið sé enn óleyst og ótengt faraldrinum. „Miðað við útgefin plön mun samkeppnin enn geta framleitt sömu vöru og Icelandair fyrir 20% minni kostnað árið 2024. Það mun ekki ganga upp."

Egill Almar Ágústsson
Egill Almar Ágústsson

Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og ráðgjafi hjá Boston Consulting Group.