Vandamál Seðlabankans felst ekki í skorti á trúverðugleika, heldur kerfisgalla í leiðni peningamálastefnunnar, segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Kaupþing birti hagspá sína, „Efnahagshorfur að vori“, á kynningarfundi í morgun. Hann sagði að  krónan hefði höfuðáhrif á þróun verðlags og einkaneyslu hérlendis og jafnframt að Seðlabankinn  gæti ekki haft stjórn á genginu og hefði því ekki fullt vald á verðbólgunni. Krónan væri á floti - gengi kaupum og sölum.

„Mikil áhrif gengisins  virðast vera  kerfiseinkenni  íslensks efnahagslífs sem ólíklegt er að breytist í bráð,“ sagði hann og sagðist telja að viðfangsefnið væri m.a. að auka leiðni peningastefnunnar hér innanlands þannig að vextir þyrftu ekki að fara í jafnmiklar hæðir til þess að hafa áhrif á efnahagslífið. Það væri m.a. hægt með því að vera með breytilega vexti á húsnæðislánum og gera  umbætur  á Íbúðalánasjóði, þannig að stýrivextir skiluðu sér betur út í  fjármagnskostnað íbúðalána.