Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í ræðu sinni á iðnþingi SI að Ísland hefði öll tækifæri til þess að ná vopnum sínum eftir efnhagskreppuna. Hann gagnrýndi einnig stjórnvöld fyrir skattahækkanir og ranga efnahagsstefnu. Ræðuna er hann enn að flytja.

„Tækifærin eru þarna en kreppan er því miður einnig á sínum stað vegna rangrar efnahagsstefnu og allt of margra misráðinna ákvarðana stjórnvalda á sviði atvinnumála og skattamála sem dregið hafa kjarkinn úr landsmönnum – einmitt þegar við þurfum á allt öðru að halda," sagði Helgi.

Hann sagði reiði og tortryggni vera alltof fyrirferðamikla í umræðu hér á landi. Helgi sagði m.a.:

„Við erum enn föst í viðjum hrunsins; vonbrigðum, tortryggni, reiði. Því miður eru allt of margir uppteknir af hatri og refsigleði. Það torveldar okkur að komast úr sporunum og horfa fram á veginn. Tregða landsmanna til að hrista af sér andleg áhrif kreppunnar og skortur á beittri uppbyggingarstefnu í atvinnumálum gerir það að verkum að við Íslendingar erum að tapa tíma frá því að hefja ferð okkur upp á við að nýju. Menn beina frekar athygli að því að herða reglur og heimildir yfirvalda til inngripa í atvinnulífið, eins og t.d. nýsett samkeppnislög eru hættulegt dæmi um. Árið 2010 fór fyrir lítið í þeirri viðleitni beina sjónum manna fram á veginn," sagði Helgi.

Hann sagði að þó að árið í ár væri ár nýsköpunar þá væru gömul og góð gildi enn jafn mikilvæg.

„Þó Samtök iðnaðarins setji nýsköpun í forgang á þessu ári, er það engu að síður þannig að viðfangsefnin eru hin sömu og áður en áherslur aðrar og skarpari innan sjálfs iðnaðarins. Við þurfum að endurtaka baráttuefni okkar ár eftir ár því hægagangur og röng stefnumörkun einkenna samfélag okkar – því miður. Annað verður ekki sagt á meðan hagvöxtur er engan veginn nægur og 14 þúsund manns eru án atvinnu auk þess að 8 þúsund störf hafa tapast til viðbótar vegna þeirra sem hafa flutt úr landi," sagði Helgi.